Flokkur: Rubio Monocoat

Rustica er sölu- og dreifingaraðili fyrir Rubio Monocoat vörur á Íslandi. Rubio Monocoat viðarolían er ólík öllum öðrum viðarolíum og því mælum við með að þeir sem þekki ekki til lesi sér til um hana áður en lengra er haldið.

Rubio er einstök að því leitinu til að hún verndar (og litar) harðvið með aðeins einni umferð. Flaggskip Rubio er "Pure" olían þeirra, sem er litlaus olía, en til að fyrirbyggja misskilning þá er hreina olían ekki litlaus, heldur gefur hún harðvið samstundis djúpan karakter, dregur fram allar viðaræðar og gefur t.d. eik fallegan djúpan lit sem mætti helst lýsa sem hunangstón. Þetta er kostur ef draga á fram lífið í viðnum, en ókostur ef ætlunin er að halda viðnum líkt og hans sé ómeðhöndlaður. Hér að neðan eru myndir af eik sem er ómeðhöndluð og svo sami viðarbútur eftir að hafa fengið meðhöndlun með Rubio Pure.

Auk hreinu olíunnar er Rubio fáanleg í 40 litum, við eigum að öllu jafna til milli 20 - 25 liti á lager, en yfirleitt er lítið mál að fá þá liti sem við eigum ekki fyrirliggjandi, vinsamlegast hafið samband og við leysum málið.

Rubio er fáanleg í fjórum stærðum, 20ml, 100ml, 350ml og 1,3L. Stærstu einingarnar (1,3L og 350ml) innihalda olíu auk þurrkefnis (svokallaður "B Component") sem flýtir þurrktíma olíunnar og hún nær fullum styrk mun fljótar en ef olían er notuð ein og sér. Ef Rubio er notuð á gólf, borðplötur eða húsgögn er nauðsynlegt að nota olíuna með þurrkefninu, en ef verkefnið er þess eðlis að þurrktíminn er ekki lykilatriði þá má nota olíuna eina og sér.

Þurrkefnið er litlaust og eiturefnalaust líkt og olían sjálf. Rubio er harðvaxolía þar sem uppistaðan er línolía og hana má nota á allar viðartegundir. Áferðin af olíunni er alveg mött og án gljáa. Ef þig langar að fá örlítinn gljáa á yfirborðið þá er hægt að bera Rubio viðhaldsolíu yfir flötinn.

Rubio viðarolían er algjörlega eiturefnalaus og hana má nota á gólf, borðplötur, skurðarbretti og barnaleikföng. Þar sem uppistaðan í henni er línolía þá hitnar hún meðan hún er að þorna og þess vegna er nauðsynlegt að gæta að því að bleyta í öllum tuskum áður en þeim er hent. Aldrei henda olíublautum klútum eða tuskum beint í ruslafötu þar sem slíkt felur í sér hættu á sjálfsíkveikju.

4 vörur